Lífeyrir

Þeir sem starfa á íslenskum vinnumarkaði safna upp rétti til lífeyris með lífeyrissparnaði. Persónulegur sparnaður, getur tryggt fjárhagslega afkomu á efri árum til viðbótar við lögbundið framlag í lífeyrissjóði og ellilífeyri almannatrygginga.

Lífeyrissparnaður

Lífeyristekjur geta haft áhrif á bætur almannatrygginga sem eru tekjutengdar.

 • Sækja þarf um greiðslur úr lífeyrissjóðum. Umsóknareyðublöð er að fá hjá hverjum sjóði. Þau má einnig nálgast á vefjum lífeyrissjóðanna eða fá þau send.
 • Nóg er að sækja um lífeyri hjá einum sjóði þó að greitt hafi verið í fleiri, þar sem flestir lífeyrissjóðir eru aðilar að samkomulagi sem kveður á um flutning iðgjalda á milli sjóða.
 • Allir lífeyrissjóðir geta veitt upplýsingar um þá sjóði sem einstaklingur hefur greitt í um ævina.
 • Almennt hefja lífeyrissjóðir útborgun lífeyris við 67 ára aldur en nokkrir sjóðir miða við 65 ára aldur. Rétt er að kynna sér reglur hlutaðeigandi sjóða.
 • Lífeyrissjóðir geta heimilað sjóðfélögum sínum að fresta töku lífeyris til 70 ára aldurs eða flýta henni um allt að fimm ár. Greiðslur hækka þá eða lækka hlutfallslega.
 • Lífeyrir er borgaður út mánaðarlega með jöfnum greiðslum til æviloka.
 • Upphæð lífeyris er í hlutfalli við greidd iðgjöld á starfsævinni, með örfáum undantekningum.
 • Lífeyrisgreiðslur eru skattlagðar eins og launatekjur. Til að nýta persónuafslátt frá því að greiðslur hefjast þarf að skila inn skattkorti um leið og sótt er um lífeyri.
 • Makalífeyrir er greiddur eftirlifandi maka sjóðfélaga ef skilyrðum viðkomandi sjóðs er fullnægt. Hver sjóður setur sér nánari reglur um makalífeyri, svo sem um fjárhæð.

Lífeyrismál á vef fjármála- og efnahagsráðuneytis
Lífeyrissjóðir og lífeyrisréttindi á vef Landssamtaka lífeyrissjóða

Viðbótarlífeyrissparnaður

 • Viðbótarlífeyrissparnaður er frjáls sparnaður þar sem launafólk getur lagt hluta af launum sínum til hliðar á sérstakan reikning og fengið mótframlag frá vinnuveitanda.
 • Útborgun viðbótarlífeyris getur hafist við 60 ára aldur eða síðar og hann er greiddur út með jöfnum afborgunum fram að 67 ára aldri eða lengur ef kosið er.
 • Almennt er miðað við að lokaútborgun viðbótarsparnaðar sé í fyrsta lagi þegar 67 ára aldri er náð. Réttur til útborgunar getur fengist fyrr ef greiðslan er lægri en viss viðmiðunarfjárhæð.
 • Ef reikningseigandi á inni viðbótarsparnað eftir 67 ára aldur ræður hann hvort eftirstöðvar eru borgaðar út með jöfnum afborgunum eða allar í einu.
 • Viðbótarsparnað má taka allan út eftir 60 ára aldur vegna örorku og hann er greiddur lögerfingjum við andlát.
 • Tekjuskattur er lagður á útborgaðan viðbótarsparnað.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir