Skráning og skoðun
Öll ökutæki þarf að skrá og skoða áður en þau eru tekin í notkun og skoða síðan reglulega á meðan þau eru í umferð.
Skráning
Samgöngustofa
Eyðublöð vegna skráningar ökutækja Ökutækjaskrá
- Öll ökutæki sem flutt eru til landsins þarf að skrá í ökutækjaskrá Samgöngustofu. Skráðar eru upplýsingar um gerð ökutækis, eigendur, gjöld og fleira.
- Skráning er í aðalatriðum þannig að sá sem flytur inn ökutæki sækir um forskráningu, fastanúmeri er úthlutað, ökutækið er tollafgreitt og skoðað á faggildri skoðunarstofu.
- Bifreið öðlast fullgilda skráningu, eða nýskráningu, þegar hún hefur fengið skoðun og verið tryggð.
- Mögulegt er að sækja um sérstaka áletrun á skráningarmerki bifreiðar í stað fastanúmers, svokallað einkamerki. Greitt er sérstaklega fyrir úthlutun þess.
- Skráningarskírteini á alltaf að varðveita í ökutækinu.
Afskráning og úrvinnsla
- Heimilt er að afskrá ökutæki ef það er ónýtt eða á að flytja það úr landi.
- Ónýtum ökutækjum á að skila til úrvinnslu á söfnunarstöðvar og fæst þá sérstakt skilagjald greitt hjá Umferðastofu eða faggildri skoðunarstofu.
Söfnunarstöðvar og útborgun skilagjalds á vef Úrvinnslusjóðs
Skoðun
- Skylda er að láta skoða ástand og búnað allra ökutækja reglulega hjá faggiltri skoðunarstofu.
- Fólksbifreiðar, bifhjól og eftirvagna á fyrst að skoða á þriðja ári eftir nýskráningu og síðan árlega frá og með fimmta ári.
- Síðasti tölustafur í skráningarmerki ökutækis segir til um í hvaða mánuði á að færa það til skoðunar. Endi skráningarmerki á 0 skal skoðun fara fram í október.
- Ef bókstafur er síðasti stafur í einkamerki ökutækis ber að láta skoða það í maí-mánuði.
- Bifhjól á að skoða fyrir 1. júlí.
- Ef athugasemdir eru gerðar við ásigkomulag ökutækis þarf að endurskoða það að loknum lagfæringum. Endurskoðanir geta farið fram á faggiltum skoðunarstofum og endurskoðunarverkstæðum.
- Að lokinni skoðun er skoðunarmiði settur á skráningarmerki ökutækis sem segir til um hvenær á næst að færa það til skoðunar.
- Skoðunarmiða má ekki fjarlægja og skoðunarvottorð á að fylgja skráningargögnum í bifreið.
- Ef ökutæki er breytt að því marki að búnaður þess er ekki í lengur í samræmi við skráðar upplýsingar í ökutækjaskrá ber að láta skoða það. Skráningu í ökutækjaskrá er þá breytt til samræmis.
- Ökutæki fá ekki skoðun ef bifreiðagjöld eru í vanskilum eða skyldutrygging ekki gild.
- Ef ökutæki hefur ekki verið skoðað á tilskildum tíma hefur lögregla heimild til að taka það úr umferð með því að klippa númer þess af. Eigandi getur átt von á að þurfa að greiða sérstakt gjald vegna þessa.
Skoðun ökutækja á vef Samgöngustofu