Ökunám og -réttindi

Ökuréttindi fást að loknu ökunámi hjá ökukennara og í ökuskóla en almennur ökuprófsaldur hér á landi er 17 ár.

Ökunám

 • Ökunám á fólksbifreið getur hafist við 16 ára aldur en ökuréttindi eru fyrst veitt við 17 ára aldur. Réttindaaldur fyrir létt bifhjól (skellinöðru) er 15 ár og fyrir dráttarvél 16 ár.
 • Til að hefja ökunám þarf að hafa samband við löggiltan ökukennara. Ökukennari hefur umsjón með bæði verklegum og bóklegum hluta námsins og vísar á ökuskóla þar sem bóklegt nám fer fram.
 • Ökunemar geta stundað æfingaakstur á bifreið með leiðbeinanda öðrum en ökukennara. Skilyrði fyrir leyfi til æfingaaksturs eru að:
  • nemandi hafi að minnsta kosti lokið fyrri hluta bóklegs náms og hlotið næga verklega þjálfun að mati ökukennara,
  • leiðbeinandi sé orðinn 24 ára og hafi að minnsta kosti 5 ára akstursreynslu,
  • leiðbeinandi hafi leyfi sem sótt er um til sýslumanna á hverjum stað en í Reykjavík til lögreglustjórans.

Ökupróf

 • Ökupróf eru haldin reglulega á vegum Frumherja sem hefur þjónustustaði um allt land og sér um framkvæmd prófa í umboði Samgöngustofu.
 • Að loknu bóklegu námi er skriflegt próf þreytt. Heimild til próftöku þarf að liggja fyrir en hún fæst með því að sækja um ökuskírteini til sýslumanna.
 • Eyðublöð fást þar og í ökuskólum og hægt er að sækja um hvar sem er á landinu óháð búsetu.
 • Verklegt próf getur farið fram að loknu verklegu námi og þegar skriflegu prófi er náð.

Allt um ökunám og ökuréttindi hjá Samgöngustofu
Framkvæmd ökuprófa hjá Frumherja
Kennslumiðstöð Ökukennarafélags Íslands

Ökuréttindi

 • Þeir sem standast ökupróf geta fengið útgefna bráðabirgðaakstursheimild samdægurs hjá lögreglustjóra gegn framvísun ökunámsbókar með áritun prófdómara.
 • Ökuskírteini er afhent innan nokkura daga frá því ökupróf er tekið. Fyrsta ökuskírteini er til bráðabirgða og gildir í þrjú ár.
  Ökuréttindi og skírteini
 • Fullnaðarskírteini er gefið út í fyrsta lagi eftir eitt ár frá ökuprófi. Sækja þarf um fullnaðarskírteini hjá sýslumönnum.
 • Skilyrði fyrir útgáfu fullnaðarskírteinis er að ökumaður hafi ekki hlotið refsipunkta vegna umferðarlagabrota undangengið ár og hafi farið í akstursmat sem ökukennarar annast.

Endurnýjun

 • Almenn ökuréttindi gilda til 70 ára aldurs en eftir það þarf að endurnýja ökuréttindi reglulega. Endurnýjun ökuréttinda eldri borgara
 • Ef meira en tvö ár líða frá því að ökuréttindi renna úr gildi verður að taka hæfnispróf áður en réttindin fást endurnýjuð.
 • Þeir sem sviptir hafa verið ökuleyfi verða að standast ökupróf að nýju ef svipting hefur staðið lengur en eitt ár.
 • Byrjendur með bráðabirgðaskírteini, sem sviptir eru ökuréttindum eða hljóta akstursbann, verða að sækja sérstakt námskeið og standast ökupróf til að fá ökuréttindi á ný.

Umferðarlagabrot; akstursbann, refsipunktar og fleira á island.is

Réttindaflokkar

 • Almenn ökuréttindi eru tilgreind sem B-réttindi í ökuskírteini og veita réttindi til að stjórna ýmsum ökutækjum auk fólksbifreiða.
  Flokkar ökuréttinda
 • Til að öðlast aukin ökuréttindi, svo sem réttindi á vörubíla, rútur, eftirvagna og til farþegaflutninga í atvinnuskyni þarf að sækja þar til gerð námskeið í ökuskólum.
 • Réttindi á vinnuvélar fást hjá Vinnueftirlitinu.

Réttindanámskeið hjá Vinnueftirlitinu

Vert að skoða

Lög og reglugerðir