Fara beint í efnið

Skattur af launum og lífeyri

Öll sem eru skattskyld á Íslandi og hafa tekjur yfir skattleysismörkum greiða skatta af launum sínum sem fara í sameiginlegan sjóð landsmanna.

Skattur af launum einstaklinga

Skattur af launum einstaklinga skiptist annars vegar í tekjuskatt til ríkisins og hins vegar í útsvar til sveitarfélaga.

Skattleysismörk taka mið af persónuafslætti og staðgreiðsluhlutfallinu og eru það mörkin sem miðað er við áður en skattur er greiddur af laununum.

Atvinnurekandi dregur staðgreiðsluna af launum launþegans og skilar til innheimtumanns ríkissjóðs.

Launþegar sem starfa á fleiri en einum stað þurfa að upplýsa atvinnurekendur um önnur launuð störf til að rétt hlutfall tekjuskatts sé dregið af launum.

Skattþrep launþega 2024 eru þrjú. Launþegar greiða því:

  • 31,48% af tekjum undir 446.136 kr. á mánuði (þar af 16,55% tekjuskattur)

  • 37,98% af tekjum 446.137–1.252.501 kr. á mánuði (þar af 23,05% tekjuskattur)

  • 46,28% af tekjum yfir 1.252.501 kr. á mánuði (þar af 31,35% tekjuskattur)

Útsvarið sem launþegar greiða af launum sínum er einn af tekjustofnum sveitarfélaga og er það mismunandi eftir sveitarfélögum.

Við staðgreiðslu útsvars er miðað við meðalútsvar allra sveitarfélaga. Á árinu 2024 er meðalútsvar 14,93%.

Börn yngri en 16 ára hafa sérstakt frítekjumark og greiða 6% af tekjum sem fara yfir frítekjumarkið í skatt.

Reiknaðu út hvað greitt er í skatt af laununum
Staðgreiðsla á vef Skattsins

Skattframtal og álagning

Framtal

Skylda er að skila inn skattframtali til ríkisskattstjóra í marsmánuði ár hvert. Á skattframtali eru gefnar upplýsingar um tekjur, eignir og skuldir frá fyrra ári.

Álagning fer fram í byrjun júní ár hvert og fá einstaklingar niðurstöður álagningar, sem er uppgjör á sköttum og gjöldum fyrir árið á undan.

Þau sem hafa greitt of mikið í skatt fá greitt til baka. Ef of lítið hefur verið greitt í skatt þarf að greiða það sem á vantar.

Innheimta

Skuld eftir álagningu er skipt niður á allt að sjö gjalddaga. Innheimta skulda fer í gegnum launagreiðendur. Þeim er send krafa um að draga skuld frá launum hvers mánaðar.Þau sem ekki eru í vinnu eða starfa sjálfstætt fá sendan greiðsluseðil vegna innheimtu skatta eftir álagningu.

Greiðsluáætlun

Hægt er að dreifa greiðslum á lengra tímabil með því að gera greiðsluáætlun. Greiðsluáætlun er gerð til að lækka mánaðarlega greiðslubyrði en á móti kemur hærri vaxtakostnaður. Greiðsluáætlanir eru gerðar á mínum síðum á Ísland.is. Ferlið er aðgengilegt bæði á íslensku og ensku.

Nánari upplýsingar um greiðsluáætlanir

Þjónustuaðili

Skatt­urinn