Legstaður

Kirkjugarðar og grafreitir eru friðhelgir samkvæmt lögum. Ekki má í nánd við kirkjugarða reisa mannvirki, starfrækja stofnanir eða reka fyrirtæki sem frá stafar hávaði eða ys.

Gröf, kross, merking og legsteinn

 • Fólk í öllum trúfélögum og utan þeirra á lögvarinn rétt á legstað í þeirri sókn sem það andaðist eða var síðast heimilisfast eða þar sem aðstandendur óska legstaðar.
 • Ef hinn látni á ekki frátekinn legstað í kirkjugarði er nýjum úthlutað. Hægt er að taka frá einn til tvo legstaði við hlið hins látna.
 • Sé til frátekinn legstaður fyrir hinn látna þarf sá sem skráður er fyrir honum að gefa skriflegt leyfi um að þar megi grafa. Þetta á ekki við ef hinn látni er skráður fyrir legstað.
 • Útfararstofur sjá um að útvega legstaði.
 • Öll leiði eru auðkennd með tölumerki í legstaðaskrá.
 • Sérstakur duftreitur fyrir fóstur sem látast í móðurkviði er í Fossvogskirkjugarði.
 • Í flestum kirkjugörðum eru minnismerki eða minningarreitir þar sem aðstandendur þeirra sem grafnir eru annarsstaðar eða hafa ekki fundist geta minnst hins látna.

Kross – Púlt – Legsteinn

 • Allflest leiði eru merkt með krossi, svokölluðum púltum eða legsteini og á þetta jafnt við í grafreitum og duftreitum.
 • Þar kemur fram nafn hins látna, fæðingardagur og dánardagur. Margir velja einnig að hafa blessunarorð og trúartákn og/eða einfalda skreytingu.
 • Mælt er með því að krossar eða léttar merkingar séu notuð fyrst í stað á leiði í grafreitum meðan jarðvegur er að síga og þéttast.
 • Ef aðstandendur óska geta útfararstofur útvegað krossa, púlt og legsteina.
 • Fjölmörg fyrirtæki í steiniðnaði hanna og framleiða legsteina og aðra fylgihluti.

Annað varðandi útför

Tónlist – söngur – upplestur – sálmaskrá.

 • Tónlistarflutningur tíðkast við útfarir, bæði trúarlegur og veraldlegur og oft einnig upplestur. Ósjaldan hefur hinn látni gefið fyrirmæli eða látið upp óskir um hvaða ljóð eða bókarkafli skuli lesinn upp, hvaða sálmar sungnir og tónlist leikin.
 • Prestar, útfararstofur og forstöðumenn trúfélaga/lífsskoðunarfélaga veita aðstoð varðandi val á tónlist og flytjendum ef óskað er. Í þjóðkirkjunni gildir sú meginregla að alltaf skuli nota lifandi tónlist við útfarir. Undantekningar eru þegar leikið er af geisladiskum á undan athöfn, eða vegna einhverra sérstakra aðstæðna. Tónlistarfólk og aðrir sem gætu komið að útför:
  • Orgelleikari.
  • Einsöngvari.
  • Sönghópur.
  • Einleikari.
  • Hljóðfæraleikarar.
  • Upplesari.
  • Hljómdiskar.

Sálmaskrá

 • Þegar aðstandendur hafa, í samráði við prest, forstöðumann trúfélags/lífsskoðunarfélags og/eða útfararstofu, skipulagt útför kjósa flestir að láta útbúa sálmaskrá. Í skránni er að finna hvaða sálmar og tónlist verða flutt, hverjir flytja, hvaða prestur jarðsyngur og jafnvel þakkir og kveðja frá aðstandendum.
 • Aðstandendur geta ýmist látið útfararstofur sjá um frágang og prentun sálmaskrár eða séð sjálfir um verkið.

Blóm og kransar

 • Venja er að setja blómvönd, blómaskreytingu eða þjóðfána á kistu við útför. Ef moldað er í kirkju skal sjá til þess að brotið sé upp á fánann þannig að hann snerti ekki moldina. Fáninn er tekinn af kistunni áður hún er látin síga í gröfina.
 • Algengt er að fólk sendi blóm og kransa til minningar um hinn látna og eru þau látin standa við hlið kistu við athöfnina.
 • Stundum afþakka aðstandendur blóm og kransa, en benda fólki á að láta líknarfélög eða önnur félög njóta góðs af framlögunum.

Kirkjugarðar Akureyrar
Kirkjugarðar Reykjavíkur
Kirkjugarðasamband Íslands
Sálmabók íslensku þjóðkirkjunnar

Lög og reglugerðir