Fara beint í efnið

Útför og legstaður, upplýsingar fyrir aðstandendur

Kirkjugarðar og grafreitir eru friðhelgir samkvæmt lögum. Ekki má í nánd við kirkjugarða reisa mannvirki, starfrækja stofnanir eða reka fyrirtæki sem frá stafar hávaði eða ys.

Fólk í öllum trúfélögum og utan þeirra á lögvarinn rétt á legstað í þeirri sókn sem það andaðist eða var síðast heimilisfast eða þar sem aðstandendur óska legstaðar.

Sé til frátekinn legstaður fyrir hinn látna þarf sá sem skráður er fyrir honum að gefa skriflegt leyfi um að þar megi grafa. Þetta á ekki við ef hinn látni er skráður fyrir legstað. Ef hinn látni á ekki frátekinn legstað í kirkjugarði er nýjum úthlutað. Hægt er að taka frá einn til tvo legstaði við hlið hins látna.

Útfararstofur sjá um að útvega legstaði.

Öll leiði eru auðkennd með tölumerki í legstaðaskrá.

Sérstakur duftreitur fyrir fóstur sem látast í móðurkviði er í Fossvogskirkjugarði.

Í flestum kirkjugörðum eru minnismerki eða minningarreitir þar sem aðstandendur þeirra sem grafnir eru annars staðar eða hafa ekki fundist geta minnst hins látna.

Kross – púlt – legsteinn

Allflest leiði eru merkt með krossi, svokölluðum púltum eða legsteini og á þetta jafnt við í grafreitum og duftreitum. Þar kemur fram nafn hins látna, fæðingardagur og dánardagur. Margir velja einnig að hafa blessunarorð og trúartákn og/eða einfalda skreytingu.

Mælt er með því að krossar eða léttar merkingar séu notuð fyrst í stað á leiði í grafreitum meðan jarðvegur er að síga og þéttast.

Ef aðstandendur óska geta útfararstofur útvegað krossa, púlt og legsteina.

Útför skipulögð

Jarðsetning eða dreifing dufts yfir víðerni er lagaleg skylda. Sérstök kirkjuleg eða önnur trúarleg athöfn á undan jarðsetningu er það ekki.

Við skipulagningu útfarar er æskilegt að fara að óskum hins látna ef þær liggja fyrir og taka nauðsynlegar ákvarðanir í ljósi þeirra.

Staður og stund

Að mörgu er að hyggja varðandi útför hvort sem óskir hins látna liggja fyrir eða ekki. Meginreglan er sú að útför skuli alltaf fara fram samkvæmt siðum þess trúfélags/lífsskoðunarfélags sem hinn látni tilheyrir, eða með öðrum hætti ef ekki er um að ræða neina félagsaðild. Samkvæmt venju kristinna fer útför yfirleitt fram fimm til tíu dögum eftir andlát.

Kirkjuleg athöfn er ekki lagaleg skylda. Útfarir geta farið fram í kirkjum, kapellum, bænhúsum, samkomuhúsum trúfélaga/lífsskoðunarfélaga, heimahúsum og ýmsum öðrum samkomustöðum, allt eftir trú, vilja og óskum hins látna og/eða aðstandenda.

Útför getur farið fram alla daga vikunnar, allt eftir því hvaða trúfélagi hinn látni tilheyrði, að því tilskyldu að umsjónarmenn og starfsfólk kirkjugarða og grafreita heimili það.

Útfararstofur

  • Útfararstofur eru starfræktar víða um land. Þjónusta þeirra er ætluð öllum, innan sem utan trúfélaga/lífsskoðunarfélaga. Hægt er að leita til þeirra á hvaða tíma sólarhrings sem er.

  • Útfararstofur veita ráðleggingar og sjá um alla þætti útfarar í samráði við aðstandendur. Flestar þeirra eru með vefi og margar hafa gefið út upplýsingabæklinga um starfsemi sína.

Listi yfir þá sem hafa leyfi til að starfrækja útfararþjónustu á vef sýslumanna.

Kista og kistulagning

Látnir eru lagðir til hinstu hvílu í kistu og þurfa aðstandendur í samráði við útfararstjóra að ákveða umbúnað hins látna. Útfararstofur geta veitt aðstandendum aðstoð við val á kistu og öðru nauðsynlegu. Sérstakar reglur gilda um kistur þegar bálför á að fara fram.

Við kistulagningu kveðja nánasta fjölskylda og vinir hinn látna. Á landsbyggðinni annast starfsfólk sjúkrastofnana, í nánu samstarfi við aðstandendur, undirbúning kistulagningar. Kistulagning fer yfirleitt fram í kapellum, bænhúsum eða kapellum sjúkrahúsa og heilsustofnana.

Kistulagning kristinna fer yfirleitt fram tveimur til sex dögum eftir andlát. Misjafnt er eftir trúfélögum hvort og hvenær kistulagning þeirra sem ekki tilheyra þjóðkirkjunni fer fram. Þetta á einnig við um þá sem eru utan trúfélaga.

Hins látna er minnst í fáum orðum af presti, forstöðumanni trúfélags eða ættingja, sungið, beðnar bænir og leikin tónlist ef óskað er.

Útför

Útför getur ekki farið fram nema staðfesting sýslumanns á viðtöku dánarvottorðs liggi fyrir.

Útför getur verið tvenns konar:

  1. Greftrun/jarðarför. Að lokinni útfararathöfn er kistan borin til grafar og jarðsett í kirkjugarði eða óvígðum reit.

  2. Bálför. Að lokinni útfararathöfn er kistan brennd og aska hins látna sett í duftker sem ýmist er jarðsett í duftreit, ofan í leiði eða öskunni dreift.

Þegar útför fer fram í kyrrþey eru aðeins nánustu aðstandendur og vinir viðstaddir. Ekki er þá birt opinber tilkynning um andlát fyrr en að lokinni útför.

Trúfélag eða lífsskoðunarfélag

Við útfarir gilda siðir siðir og venjur þess trúfélags/lífsskoðunarfélags sem hinn látni tilheyrði. Útfarir á vegum þjóðkirkjunnar fara fram í samræmi við helgisiðabók og handbók íslensku kirkjunnar. Borgaraleg útför fer fram án þátttöku prests eða annars fulltrúa kirkjunnar. Ef hinn látni tilheyrði ekki neinu trúfélagi er það aðstandenda að ákveða hvernig athöfn er háttað.

Hefðbundin útför kristins manns gæti samkvæmt handbók kirkjunnar farið fram sem hér segir:

  • Forspil, leikið á orgel og/eða önnur hljóðfæri.

  • Bæn.

  • Sálmur.

  • Ritningarlestur.

  • Sálmur eða tónlistarflutningur.

  • Guðspjall.

  • Sálmur eða tónlistarflutningur.

  • Minningarorð.

  • Sálmur, einsöngur, einleikur eða upplestur.

  • Bænir.

  • Faðir vor.

  • Sálmur eða tónlistarflutningur.

  • Moldun – fer ýmist fram í kirkju eða kirkjugarði.

  • Sé moldað í kirkju fylgir sálmur og síðan blessun.

  • Verði moldað í kirkjugarði fylgir aðeins blessun.

  • Eftirspil og útganga.

Greftrun eða bálför

Jarðsetja á kistur látinna í merktum grafreit eða vígðum kirkjugarði samkvæmt lögum. Allir kirkjugarðar í notkun eru vígðir. Í Gufuneskirkjugarði eru reitir ætlaðir öðrum trúfélögum og einnig óvígður reitur ætlaður þeim sem ekki vilja hvíla í vígðri mold.

Duftker eru annað hvort jarðsett í sérstökum duftreitum eða duftgörðum í kirkjugörðum eða ofan í legstaði með leyfi rétthafa leiðis.

Heimagrafreitir eru á ýmsum stöðum á landinu og þar sem þeir eru í notkun má jarðsetja. Ekki er gert ráð fyrir að aðrir fái þar leg en einstaklingar úr fjölskyldu þess sem leyfi hefur fyrir heimagrafreitnum. Lög heimila ekki að teknir séu upp nýir heimagrafreitir.

Gildandi lög heimila að ösku sé dreift yfir öræfi og sjó, en sérstakt leyfi þarf frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra.

Allar grafir eru friðaðar í 75 ár. Hægt er að framlengja friðun sé þess óskað.

Upplýsingar um kirkjugarða, duftgarða, duftreiti og heimagrafreiti á landinu má finna á vef Kirkjugarðasambands Íslands, gardur.is.

Greftrun – jarðarför

Þegar um greftrun/jarðarför er að ræða er kista oftast borin úr kirkju/húsi í lok útfarar af ættingjum og/eða vinum. Kistuna bera sex til átta líkmenn.

Kistu er komið fyrir í líkbíl sem fer fyrir líkfylgd aðstandenda og vina í kirkjugarð. Öllum er frjálst að fylgja kistu í garð, nema annað sé sérstaklega tilgreint.

Kista er borin úr líkbíl af líkmönnum og látin síga í gröf. Prestur moldar og fer með bæn. Síðan kveðja aðstandendur og vinir hinn látna. Við kristna útför er venja að gera krossmark yfir gröfina þegar gengið er framhjá.

Blóm og kransar fylgja kistu úr kirkju og eru sett til hliðar við gröf meðan á kveðju í kirkjugarði stendur. Þegar búið er að ganga frá gröf eru blóm og kransar sett ofan á leiðið.

Við greftrun/jarðarför látinna sem tilheyra öðrum trúfélögum/lífsskoðunarfélögum er farið eftir siðum og venjum viðkomandi trúfélags/lífsskoðunarfélags.

Bálför

Þegar um bálför er að ræða er kista ekki flutt í kirkjugarð að útfararathöfn lokinni, heldur í Bálstofuna í Fossvogi.

Vottorð lögreglustjóra/sýslumanns þarf að vera fyrir hendi áður en bálför fer fram. Útfararstofum eða þeim sem sjá um bálförina ber að afla vottorðs. Ennfremur þarf að liggja fyrir skrifleg yfirlýsing hins látna um að það sé vilji hans að bálför fari fram, eða staðfest yfirlýsing aðstandenda um að þeim hafi verið kunnugt um vilja hans.

Allir sem eru orðnir 18 ára geta skrifað undir yfirlýsingu um bálför á vef Kirkjugarða Reykjavíkur. Tilskilinna leyfa er þá aflað og óskin skráð hjá Bálstofunni.

Oft líða einhverjir dagar milli útfarar og bálfarar. Samkvæmt alþjóðlegum siðareglum bálstofa er ekki heimilt að aðstandendur séu viðstaddir þegar bálför fer fram. Aðstandendur ákveða í samráði við útfararstofu hvenær duftker er jarðsett. Það skal þó gert innan árs.

Aðstandendur kjósa oft að prestur sé viðstaddur jarðsetningu duftkers. Hann flytur þá bæn og blessunarorð. Hvort sem prestur er viðstaddur eða ekki ber að tilkynna honum að duftker skuli jarðsett, þar sem honum ber að skrá það í kirkjubók og senda tilkynningu til Þjóðskrár um hvar duftker er jarðsett.

Þegar um bálför látinna sem tilheyra öðrum trúfélögum/lífsskoðunarfélögum er að ræða er farið eftir siðum og venjum viðkomandi trúfélags/lífsskoðunarfélags.

Aðrar leiðir

Borgaraleg útför

Borgaraleg útför fer fram án prests eða annars fulltrúa trúfélags og eru trúarleg tákn og athafnir við útförina óþarfar.

Kirkjur, kapellur og bænhús þjóðkirkjunnar eru opnar fyrir borgaralegri útför, að fengnu samþykki sóknarprests. Borgaralega útför má einnig gera frá félagsheimilum, öðrum samkomuhúsum eða heimilum.

Kveðjuathöfn – minningarathöfn

Kveðjuathöfn er útför þegar hún til dæmis fer fram á höfuðborgarsvæðinu og kista síðan flutt út á land til greftrunar.

Kveðjuathafnir eru einnig oft haldnar til minningar um látna, ýmist í heimahúsum, á vinnustöðum, samkomuhúsum og í kirkjum.

Minningarathöfn er haldin þegar hinn látni hefur verið grafinn fjarri heimahögum sínum til dæmis í útlöndum eða lík hefur ekki fundist.

Útför trúlausra

Ef hinn látni hefur ekki tilheyrt neinu trúfélagi, ákveða aðstandendur hvernig útför er háttað. Hinn látni er til dæmis fluttur beint úr líkhúsi í kirkjugarð, duftreit eða til öskudreifingar á öræfum eða yfir sjó.

Útför trúlausra getur einnig farið fram í kyrrþey en síðan er haldin kveðjuathöfn.

Siðir til sveita

Útfararsiðir til sveita eru í nokkru frábrugðnir því sem gerist í þéttbýli. Þegar haldin er húskveðja er hinn látni kvaddur á heimili sínu. Hans er minnst og sungnir sálmar áður en haldið er til kirkju.

Oft er kista flutt til kirkju daginn áður en útför fer fram. Einni klukku er hringt meðan kista er borin í kirkju, ljós kveikt og látin lifa um nóttina.

Stundum þegar kista er flutt heim í sveit til útfarar, er numið staðar þar sem sér yfir byggðina, eða heima á bænum þar sem hinn látni bjó, áður en haldið er til kirkju.

Þegar kista er borin úr kirkju í garð var áður fastur siður að bera kistuna sólarsinnis umhverfis kirkjuna, víða eimir eftir af þessum sið.

Kista er aldrei borin til vinstri þegar komið er út úr kirkju, jafnvel þó gröfin sé sunnan við kirkjuna, heldur ávallt til hægri, norður- og austurfyrir til suðurs.

Víða tíðkast að þegar kista hefur verið látin síga í gröf og búið er að molda fari söfnuðurinn aftur inn í kirkju þar sem sunginn er síðasti sálmur eða ættjarðarlag.

Athöfnin

Yfirleitt snúa aðstandendur sér beint til prests eða forstöðumanns trúfélags/lífsskoðunarfélags eða ef hinn látni tilheyrir engu félagi beint til útfararþjónustu og/eða kirkjugarða. Meðal þess sem ákveða þarf er:

  • Hvar hinn látni á að hvíla.

  • Hvernig kistan á að vera.

  • Hvort um jarðarför (greftrun) er að ræða eða bálför (líkbrennsla).

  • Dagsetning kistulagningar og útfarar.

  • Tilkynningar í fjölmiðlum um andlát og útför.

  • Hver á að annast útförina og hvar hún á að fara fram.

  • Hvort kalla þurfi til organista og söngfólk, einleikara og/eða einsöngvara.

  • Hvort útför á að vera opinber eða í kyrrþey.

  • Hvort bjóða á til erfidrykkju og hver annast hana.

Menningarheimar mætast, bæklingur embættis landlæknis

Tónlist – söngur – upplestur – sálmaskrá

Tónlistarflutningur tíðkast við útfarir, bæði trúarlegur og veraldlegur og oft einnig upplestur. Ósjaldan hefur hinn látni gefið fyrirmæli eða látið upp óskir um hvaða ljóð eða bókarkafli skuli lesinn upp, hvaða sálmar sungnir og tónlist leikin.

Prestar, útfararstofur og forstöðumenn trúfélaga/lífsskoðunarfélaga veita aðstoð varðandi val á tónlist og flytjendum ef óskað er. Í þjóðkirkjunni gildir sú meginregla að alltaf skuli nota lifandi tónlist við útfarir. Undantekningar eru þegar leikið er af geisladiskum á undan athöfn, eða vegna einhverra sérstakra aðstæðna. Tónlistarfólk og aðrir sem gætu komið að útför:

  • Orgelleikari

  • Einsöngvari

  • Sönghópur

  • Einleikari

  • Hljóðfæraleikarar

  • Upplesari

  • Hljómdiskar

Sálmaskrá

Þegar aðstandendur hafa, í samráði við prest, forstöðumann trúfélags/lífsskoðunarfélags og/eða útfararstofu, skipulagt útför kjósa flestir að láta útbúa sálmaskrá. Í skránni er að finna hvaða sálmar og tónlist verður flutt, hverjir flytja, hvaða prestur jarðsyngur og jafnvel þakkir og kveðja frá aðstandendum.

Aðstandendur geta ýmist látið útfararstofur sjá um frágang og prentun sálmaskrár eða séð sjálfir um verkið.

Blóm og kransar

Venja er að setja blómvönd, blómaskreytingu eða þjóðfána á kistu við útför. Ef moldað er í kirkju skal sjá til þess að brotið sé upp á fánann þannig að hann snerti ekki moldina. Fáninn er tekinn af kistunni áður hún er látin síga í gröfina.

Algengt er að fólk sendi blóm og kransa til minningar um hinn látna og eru þau látin standa við hlið kistu við athöfnina. Stundum afþakka aðstandendur blóm og kransa, en benda fólki á að láta líknarfélög eða önnur félög njóta góðs af framlögunum.

Kostnaður við útför og útfararstyrkur

  • Kostnaður við útför er misjafn eftir því hvaða leiðir eru valdar. Aðstandendur ættu að kynna sér allan kostnað vel við undirbúning útfarar.

  • Útfararstofur, starfsfólk á hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum ásamt sóknarprestum í viðkomandi prestakalli, geta veitt upplýsingar um ýmsa kostnaðarliði.

  • Flestar útfararstofur hafa útbúið verðlista yfir þá þjónustu sem þær veita eða útvega. Þær bjóða einnig upp á að gera kostnaðaráætlun miðað við þær óskir sem fram eru settar varðandi útför. Nánari upplýsingar er að finna á vefjum útfararstofa.

  • Kirkjugörðum eða kirkjugarðasjóði ber að greiða kostnað vegna grafartöku og árlegs viðhalds leg­staða.

    Greiðsluskyldur kostnaður er eðlilegur kostnaður við grafartöku. Sjá reglugerð

  • Aðstandendur bera kostnað af þjónustu prests, þess sem sér um útförina.

  • Ef útséð er um að dánarbú hins látna geti ekki staðið undir útför getur aðstandandi sótt um útfararstyrk í því sveitarfélagi sem hann býr að uppfylltum vissum skilyrðum. Nánari upplýsingar um útfararstyrk er að finna í reglum sveitarfélaga um fjárhagsaðstoð.

  • Mörg stéttarfélög veita útfararstyrk vegna látinna félagsmanna sinna að uppfylltum vissum skilyrðum. Nánari upplýsingar fást hjá félögunum.

  • Aðildarfélög ASÍ

  • Aðildarfélög BHM

  • Aðildarfélög BSRB

  • Reglur sveitarfélaga um fjárhagsaðstoð og félagslega heimaþjónustu

Gagnlegt efni

Lög og reglugerðir