Meðlag

Meðlag tilheyrir barni og á að nota í þess þágu en það foreldri sem fær meðlag með barni sínu tekur við greiðslum þess í eigin nafni. Foreldrum ber að framfæra barn sitt til 18 ára aldurs.

Samningar um meðlag

 • Foreldrar verða að ákveða meðlag við skilnað, slit skráðrar sambúðar og þegar breytingar verða á forsjá barns.
 • Yfirleitt er það foreldrið sem barnið á lögheimili hjá og býr hjá sem krefst meðlags með barni.
 • Samningar um meðlag eru ekki gildir nema þeir séu staðfestir af sýslumanni.
 • Unnt er að breyta samningum um meðlag ef aðstæður hafa breyst eða samningur er ekki í samræmi við hagsmuni barns.
 • Ef ágreiningur um meðlagsgreiðslur kemur upp skal leita til sýslumanns.

Um meðlag á vef sýslumanna

Fjárhæð meðlags

 • Lágmarksmeðlag með barni, sem kallað er einfalt meðlag, er viss upphæð sem endurskoðuð er árlega.

Upplýsingar um lágmarksmeðlag er að fá hjá
Tryggingastofnun og Innheimtustofnun sveitarfélaga.
Um meðlagsgreiðslur á vef Tryggingastofnunar

 • Foreldrum er frjálst að semja um aukið meðlag, eða hærri meðlagsgreiðslur en nemur einföldu meðlagi. Foreldri sem barn hefur lögheimili hjá og það býr hjá getur einnig krafist úrskurðar sýslumanns um aukið meðlag.
 • Ef breytingar verða á högum foreldra eða barns, geta foreldrar gert nýtt samkomulag um meðlag eða farið fram á endurskoðun og úrskurð sýslumanns.
 • Sýslumaður tekur mið af þörfum barns og högum foreldra við ákvörðun um upphæð meðlags.
 • Hægt er að óska eftir framlögum frá meðlagsgreiðanda vegna útgjalda við sérstök tilefni í lífi barnsins. Ungmenni sem orðið er 18 ára getur einnig farið fram á menntunarframlag fram að 20 ára aldri frá því foreldri sem það býr ekki hjá.

Greiðslur og innheimta meðlags

 • Tryggingastofnun ríkisins (TR) hefur milligöngu um greiðslu lágmarksmeðlags sé þess óskað. Umsóknir er að fá á skrifstofu Tryggingastofnunar og umboðum hennar.
 • Foreldri verður sjálft að sjá um innheimtu aukins meðlags auk lágmarksmeðlags fari greiðslur þess ekki í gegnum TR.
 • Meðlagsgreiðandi greiðir til Innheimtustofnunar sveitarfélaga nema þegar samkomulag er á milli foreldra um að greitt sé án milligöngu Tryggingastofnunar. Meðlagsgreiðandi getur leitað úrræða hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga vegna vanskila.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir