• Upphrópun

Mikið álag vegna vegabréfaafgreiðslu

17.5.2017

Vegabréfaafgreiðsla gengur í stórum dráttum fyrir sig á þann veg sem gert var ráð fyrir þegar ákveðið var að gefa út neyðarvegabréf til handa þeim sem ferðast um Evrópu á næstu vikum. Ástæðan er töf á afhendingu vegabréfabóka frá prentsmiðju í Kanada með þeim afleiðingum að Þjóðskrá Íslands getur ekki gefið út almenn vegabréf fyrir alla umsækjendur fyrr en eftir 10. júní.

Um hádegi í dag, 17. maí, höfðu borist alls 5.000 umsóknir um vegabréf frá því verklagi var breytt til bráðabirgða hjá Þjóðskrá Íslands. Þar af höfðu 2.400 umsækjendur veitt upplýsingar um ferðatilhögun sína með því að fylla út eyðublað hér á vefnum.

Upplýsingar um brottfarardag ráða forgangi í afgreiðslu neyðarvegabréfa handa þeim sem hyggjast ferðast í Evrópu og almennra vegabréfa handa þeim sem eru með áfangastaði utan Evrópu í ferðaáætlunum sínum.

Starfsmenn fyrirtækisins Miðlunar voru ráðnir til að hringja í gærkvöldi í þá umsækjendur um vegabréf sem ekki höfðu upplýst um brottfarardaga og ferðaáform sín, til að fá sem gleggsta heildarmynd.

Um 85% umsækjenda hyggjast ferðast í Evrópu en um 15% utan Evrópu.

Skilningsríkir umsækjendur

Þessi staða í vegabréfaútgáfu er fordæmalaus og veldur eðlilega sumum umsækjendum óþægindum og eykur stórlega vinnuálag starfsfólks sem kemur að vegabréfaútgáfu og tilheyrandi þjónustu hjá Þjóðskrá Íslands og víðar. Viðbrögð almennings eru hins vegar á þann veg að Sólveig J. Guðmundsdóttir, sviðstjóri þjóðskrársviðs Þjóðskrár Íslands, sér ástæðu til að þakka þau alveg sérstaklega.

„Fólk er upp til hópa skilningsríkt og þakklátt, og gerir sér fulla grein fyrir því að við vinnum nú við afar sérstakar aðstæður.

Við settum okkur strax sem markmið að allir umsækjendur gætu haldið upprunalegum áformum um ferðalög með nýútgefin ferðaskilríki í höndum, eftir atvikum neyðarvegabréf eða almenn vegabréf. Ég sé enga ástæðu til annars en að þetta gangi eftir með þeim bráðabirgðaráðstöfunum sem við höfum gripið til fram að 10. júní.

Stundum erum við spurð hvort treysta megi neyðarvegabréfum sem ferðaskilríkjum? Svarið er, já! Útgáfa neyðarvegabréfa er hluti af daglegri starfsemi okkar þegar þörf krefur og neyðarvegabréf eru gefin út um allan heim. Þau eru því þekkt og algeng ferðaskilríki, en bráðabirgðaráðstöfun.“

Óbreytt umsóknarferli

Starfsfólk í vegabréfaútgáfu og á þjónustusviði Þjóðskrár Íslands fær liðstyrk frá öðrum sviðum stofnunarinnar á meðan þetta óvenjulega ástand varir.

Dæmi eru um að fólk telji að sjálft umsóknarferli vegabréfa hafi breyst tímabundið en svo er ekki. Allir sækja áfram um vegabréf eins og ekkert hafi í skorist en það er hins vegar afgreiðsla vegabréfanna sem er frábrugðin því venjulega til 10. júní.

Fáein mál hafa komið upp, aðallega í dreifbýli og erlendis, sem kölluðu á sérstakar ráðstafanir til að flýta fyrir og einfalda úrlausn fyrir alla viðkomandi, til dæmis með því að gefa út almenn vegabréf strax í stað neyðarvegabréfa í fáeinum tilvikum.