Öryggi barna á leið til skóla

19.8.2010

Nú er stutt í að skólar hefji göngu sína og margt sem hafa þarf í huga varðandi öryggi þeirra barna sem eru að hefja skólagöngu. Umferðarstofa minnir á nokkur atriði sem vert er að hafa í huga varðandi öryggi barnsins á leið til og frá skóla.

 • Það borgar sig að nota tímann áður en skólaganga hefst til að finna með barninu öruggustu leiðina til og frá skóla og ganga leiðina með barninu nokkrum sinnum.
 • Það borgar sig að láta barnið ganga til skóla nema aðstæður séu hættulegar.
 • Hafa skal í huga að öll umferð ökutækja við skóla skapar hættu.
 • Ef nauðsynlegt er að aka barninu til skóla skal gæta vel að því hvar barnið fer úr bílnum við skólann.
 • Því skal alltaf hleypt út við gangstéttina, aldrei út á akbraut.
 • Velja skal þá leið sem sjaldnast þarf að ganga yfir götu.
 • Það er mikilvægt að brýna fyrir barninu að þó það sjái bíl þá sé ekki öruggt að bílstjórinn sjái það.
 • Þar sem fara þarf yfir götu á að stoppa. Líta vel til beggja hliða og hlusta. Ganga síðan yfir ef það er óhætt.
 • Aldrei má ganga út á götu á milli kyrrstæðra bíla.
 • Alltaf skal nota gangbrautir þar sem þær eru.
 • Kenna skal barninu að nota handstýrð umferðarljós rétt. Fara yfir með því hvað rauði og græni liturinn táknar.
 • Ef barnið er komið út á gangbrautina þegar græna ljósið fer að blikka og það rauða birtist þá á það að halda áfram yfir götuna. Ekki fara til baka.
 • Ef engin gangstétt er á að ganga á móti umferðinni, eins fjarri henni og unnt er. Ef fleiri eru saman á að ganga í einfaldri röð.
 • Allir eiga að nota endurskinsmerki eða vera í yfirhöfnum með endurskini.
 • Samkvæmt lögum mega börn yngri en 7 ára ekki hjóla ein á akbraut og börnum sem eru yngri en 15 ára ber skylda til að nota hjálm þegar þau hjóla. Börn sem eru að hefja skólagöngu eiga ekki að ferðast ein á reiðhjóli.
 • Hafa skal í huga að foreldrar eru fyrirmynd barnsins. Sem dæmi má nefna að ef foreldri gengur yfir á rauðu ljósi þá mun barnið líklega gera það líka.
Umferðarstofa