Fjölsmiðja fyrir ungt fólk á Suðurnesjum

9.9.2010

Undanfarna mánuði hefur á vegum Vinnumálastofnunar, Rauða kross Íslands og sveitarfélaganna á Suðurnesjum verið unnið að undirbúningi Fjölsmiðju fyrir ungt fólk. Hún verður af sama meiði og fyrri Fjölsmiðjur í Kópavogi og á Akureyri.

Fjölsmiðjan er vinnusetur þar sem m.a. eru framleiddar vörur, veitt fagleg verkþjálfun og ýmis konar þjónusta. Þetta er atvinnutengt úrræði fyrir ungt fólk á krossgötum sem hefur flosnað upp úr námi eða vinnu. Ungmennum er hjálpað við að finna sér farveg í lífinu og byggja sig upp fyrir framtíðina. Í frétt Vinnumálstofnunar segir að ekki þurfi að fjölyrða um mikilvægi slíkrar starfsemi á Suðurnesjum en hvergi er atvinnuleysi meira á landinu.