Fjölgun  sortuæxla tengd ljósabekkjanotkun

10.9.2010

Talið er sennilegt að mikil aukning á sortuæxlum í húð hér á landi síðustu áratugi stafi einkum af notkun ljósabekkja, en einnig að hluta til af sólarlandaferðum. Þetta kemur fram í grein sem birtist í septemberhefti tímaritsins American Journal of Epidemiology.

Fram undir 1990 voru Íslendingar með lægstu tíðni sortuæxla í húð meðal Norðurlandaþjóðanna en á síðustu árum hefur hún aukist mikið og eru íslenskar konur nú með hæstu tíðnina. Sólargeislun er tiltölulega lítil hér á landi, vegna legu landsins, en notkun ljósabekkja hefur verið tvöföld eða þreföld miðað við nálæg lönd.

Athugunartímabilið er frá 1955 til 2007. Allan þann tíma voru sólarlandaferðir að aukast, en athygli vekur að notkun ljósabekkja varð ekki algeng fyrr en upp úr 1980 og jókst mest eftir 1990, á sama tíma og tíðni sortuæxla jókst mjög hratt, einkum meðal yngri kvenna.

Á allra síðustu árum hefur heldur dregið úr tíðninni hjá konum, sem sumir vilja þakka árveknisátaki gegn ljósabekkjanotkun og fækkun sólbaðsstofa.Frétt Geislavarna ríkisins