Upplýsingar vegna kjörskrár og þjóðaratkvæðagreiðslu

28.3.2011

Kjósendur geta nú kannað hvar þeir eru á kjörskrá í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl næstkomandi á vefnum kosning.is.  Með því að slá inn kennitölu kjósanda kemur upp nafn hans, lögheimili og sveitarfélag. Reykvíkingar og íbúar nokkurra stærri sveitarfélaga í landinu fá einnig upplýsingar um kjörstað og kjördeild. Þjóðskrá Íslands sér um gerð kjörskrárstofna, en þetta er í fjórða sinn sem hún útbýr slíkan aðgang að kjörskrá. Á kjörskrárstofni eru allir íslenskir ríkisborgarar sem skráðir voru með lögheimili í ákveðnu sveitarfélagi samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 19. mars 2011 og fæddir eru 9. apríl 1993 og fyrr. Ennfremur eru á kjörskrárstofni íslenskir ríkisborgarar, sem lögheimili eiga erlendis en eiga kosningarrétt samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis. Þeim sem vilja koma að athugasemdum við kjörskrá er bent á að senda þær hlutaðeigandi sveitarstjórn. Athygli er vakin á því að sveitarstjórn getur allt fram á kjördag gert leiðréttingar á kjörskrá, ef við á. Kjörskrár skulu lagðar fram eigi síðar en miðvikudaginn 30. mars,  almenningi til sýnis, á skrifstofu sveitarstjórnar eða öðrum hentugum stað. Sveitarstjórn auglýsir hvar kjörskrá liggur frammi. Lagastofnun Háskóla Íslands vinnur að gerð hlutlauss kynningarefnis vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar í samræmi við ályktun Alþingis. Gert er ráð fyrir að kynningarvefur Lagastofnunar verði opnaður 28. mars og kynningarbæklingi dreift á hvert heimili 4. og 5. apríl.  Greidd verða atkvæði um hvort lög nr. 13/2011, sem gjarnan eru kennd við svokallað Icesave-samkomulag, skuli halda gildi sínu eða falla úr gildi, í kjölfar þess að forseti Íslands synjaði þeim staðfestingar.

Fréttatilkynning innanríkisráðuneytis
Lagastofnun Háskóla Íslands 
Sveitarfélög á landinu
Vefurinn thjodaratkvaedi.is
Þjóðskrá Íslands