Tannlækningar fyrir börn tekjulágra

27.4.2011

Frá 1. maí til 26. ágúst verður starfrækt tannlæknaþjónusta fyrir börn af öllu landinu á tannlæknadeild Háskóla Íslands í Læknagarði í Reykjavík. Þjónustan er ætluð börnum tekjulágra, yngri en 18 ára sem eru sjúkratryggð. Réttur til þjónustunnar er tengdur tekjum foreldra og fjölda barna á framfæri. Tryggingastofnun ríkisins tekur við umsóknum frá 28. apríl til 1. júní og verður hver og ein umsókn metin. Heimilt verður að greiða ferðakostnað barna af landsbyggðinni. Nánari upplýsingar fást hjá þjónustumiðstöð Tryggingastofnunar ríkisins í síma 560 4400, í gjaldfrjálsu númeri 800 6044 og hjá sýslumönnum sem fara með umboð stofnunarinnar. Hjá Fjölmenningarsetri verða innan skamms aðgengilegar upplýsingar um þjónustuna á erlendum málum, þ.e. ensku, pólsku, serbnesku/króatísku, taílensku, spænsku, litháísku og rússnesku. Þar er einnig hægt að fá upplýsingar og aðstoð við umsóknir og tímapantanir. Foreldrar, sem á þurfa að halda, eru hvattir til að leita aðstoðar hjá starfsmönnum leikskóla, grunnskóla og félagsþjónustu sveitarfélaganna við að sækja um aðstoð fyrir börn sín.


Reglugerð um tímabundna tannlæknaþjónustu án endurgjalds fyrir börn tekjulágra foreldra
Reglugerð um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innanlands
Tímabundin ókeypis tannlæknaþjónusta fyrir börn, TR
Eyðublað um tannlæknaþjónustu fyrir börn frá tekjulágum heimilum 
Tryggingastofnun ríkisins
Sýslumenn
Fjölmenningarsetur
Fréttatilkynning velferðarráðuneytis