Ofan koma úr fjöllunum

9.12.2011

Nú styttist óðum í að jólasveinarnir tínist til byggða. Fyrir þá sem farnir eru að ryðga í fræðunum er ekki úr vegi að rifja upp hverjir þeir eru og hvenær þeir koma. Stekkjarstaur leiðir hópinn og kemur aðfaranótt 12. desember og síðan fylgja bræður hans einn af öðrum uns Kertasníkir, sem rekur lestina, skilar sér á aðfangadag. Jóhannes úr Kötlum kann skil á þeim öllum í ljóðum sínum og á vef Þjóðminjasafnsins eru þeim gerð ítarleg skil. Neðst er pdf-skjal með vísunum og röð sveinanna sem hægt er að prenta út og hengja upp börnunum til fróðleiks og ánægju.

Áður fyrr reyndi Stekkjarstaur oft að sjúga mjólk úr ánum í fjárhúsunum.

Stekkjarstaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
og lék á bóndans fé.
Hann vildi sjúga ærnar,
- þá varð þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
- það gekk nú ekki vel.

Giljagaur er annar í röðinni. Áður en mjaltavélar komu til sögu var hann vanur að laumast inn í fjós og stela froðu ofan af mjólkurfötum.

Giljagaur var annar,
með gráa hausinn sinn.
- Hann skreið ofan úr gili
og skauzt í fjósið inn.
Hann faldi sig í básunum
og froðunni stal,
meðan fjósakonan átti
við fjósamanninn tal.

Stúfur er sá þriðji og er heldur lágur til hnésins. Hann var líka kallaður Pönnuskefill, því hann reyndi að hnupla matarögnum af steikarpönnunni.

Stúfur hét sá þriðji,
stubburinn sá.
Hann krækti sér í pönnu,
þegar kostur var á.
Hann hljóp með hana í burtu
og hirti agnirnar,
sem brunnu stundum fastar
við barminn hér og þar.

Þvörusleikir er númer fjögur í röðinni. Hann stalst til þess að sleikja þvöruna, sem potturinn var skafinn með.

Sá fjórði, Þvörusleikir,
var fjarskalega mjór.
Og ósköp varð hann glaður,
þegar eldabuskan fór.
Þá þaut hann eins og elding
og þvöruna greip,
og hélt með báðum höndum,
því hún var stundum sleip.

Pottaskefli er fimmti til byggða. Hann heitir líka Pottasleikir og situr um að komast í matarpotta, sem ekki er búið að þvo upp og sleikja skófirnar innan úr þeim.

Sá fimmti, Pottaskefill,
var skrítið kuldastrá.
- Þegar börnin fengu skófir
hann barði dyrnar á.
Þau ruku' upp, til að gá að
hvort gestur væri á ferð.
Þá flýtti 'ann sér að pottinum
og fékk sér góðan verð.

Askasleikir er sjötti. Hann faldi sig undir rúmi og ef fólk setti ask á gólfið þá greip hann askinn og sleikti allt innan úr honum.

Sá sjötti, Askasleikir,
var alveg dæmalaus. -
Hann fram undan rúmunum
rak sinn ljóta haus.
Þegar fólkið setti askana
fyrir kött og hund,
hann slunginn var að ná þeim
og sleikja á ýmsa lund.

Hurðaskellir kemur til byggða 18. desember og fer vart fram hjá neinum. Hann gengur skelfing harkalega um og skellir hurðum svo fólk hefur varla svefnfrið.

Sjöundi var Hurðaskellir,
- sá var nokkuð klúr,
ef fólkið vildi í rökkrinu
fá sér væran dúr.
Hann var ekki sérlega
hnugginn yfir því,
þó harkalega marraði
hjörunum í.

Skyrgámur eða Skyrjarmur er áttundi í röð bræðranna. Honum þótti svo gott skyr að hann stalst inn í búrið og hámaði í sig skyrið beint upp úr keraldi.

Skyrjarmur, sá áttundi,
var skelfilegt naut.
Hann hlemminn o'n af sánum
með hnefanum braut.
Svo hámaði hann í sig
og yfir matnum gein,
unz stóð hann á blístri
og stundi og hrein.

Bjúgnakrækir er númer níu. Honum þótti best að borða bjúgu og pylsur og stal þeim hvar sem hann komst í færi.

Níundi var Bjúgnakrækir,
brögðóttur og snar.
Hann hentist upp í rjáfrin
og hnuplaði þar.
Á eldhúsbita sat hann
í sóti og reyk
og át þar hangið bjúga,
sem engan sveik.

Gluggagægir er tíundi. Hann var ekki eins matgráðugur og sumir bræður hans, en skelfing forvitinn að gægjast á glugga og jafnvel að stela leikföngum, sem honum leist vel á.

Tíundi var Gluggagægir,
grályndur mann,
sem laumaðist á skjáinn
og leit inn um hann.
Ef eitthvað var þar inni
álitlegt að sjá,
hann oftast nær seinna
í það reyndi að ná.

Gáttaþefur er þriðji síðastur. Hann er með stórt nef, og honum finnst óskaplega góð laufabrauðs- og kökulyktin þegar verið er að baka fyrir jólin. Og svo reynir hann að hnupla einni og einni köku. 22. desember var líka stundum kallaður hlakkandi, því þá voru börnin farin að hlakka svo mikið til jólanna.

Ellefti var Gáttaþefur,
- aldrei fékk sá kvef,
og hafði þó svo hlálegt
og heljarstórt nef.
Hann ilm af laufabrauði
upp á heiðar fann,
og léttur, eins og reykur,
á lyktina rann.

Ketkrókur kemur á Þorláksmessu. Í gamla daga rak hann langan krókstaf niður um eldhússtrompinn og krækti sér í hangiketslæri sem héngu uppi í rjáfrinu eða hangiketsbita upp úr pottinum, en þá var hangiketið soðið á Þorláksmessu.

Ketkrókur, sá tólfti,
kunni á ýmsu lag. -
Hann þrammaði í sveitina
á Þorláksmessudag.
Hann krækti sér í tutlu,
þegar kostur var á.
En stundum reyndist stuttur
stauturinn hans þá.

Kertasníkir kemur að síðustu á aðfangadag. Í eldgamla daga voru kertin skærustu ljós sem fólk gat fengið. En þau voru svo sjaldgæf og dýrmæt að mesta gleði barnanna á jólunum var að fá sitt eigið kerti. Og aumingja Kertasníki langaði líka að eignast kerti.

Þrettándi var Kertasníkir,
- þá var tíðin köld,
ef ekki kom hann síðastur
á aðfangadagskvöld.
Hann elti litlu börnin,
sem brostu, glöð og fín,
og trítluðu um bæinn
með tólgarkertin sín.

Vísur Jóhannesar úr Kötlum - fyrri hluti
Vísur Jóhannesar úr Kötlum - seinni hluti
Heimsóknir íslensku jólasveinanna á Þjóðminjasafnið á aðventunni
Um íslensku jólasveinanna á vef Þjóðminjasafns Íslands