Ísland.is starfar eftir stefnu ríkis og sveitarfélaga um málefni upplýsingasamfélagsins

Ísland.is er upplýsinga- og þjónustuveita opinberra aðila á Íslandi. Meginmarkmiðið er að fólk og fyrirtæki geti fengið upplýsingar og notið margvíslegrar þjónustu hjá opinberum aðilum á einum stað í gegnum eina gátt.

Ísland.is gegnir lykilhlutverki í framgangi fjögurra meginmarkmiða í stefnu ríkis og sveitarfélaga í málefnum upplýsingasamfélagsins.

Ísland.is starfar einnig í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar frá því í lok nóvember 2017. Þar segir: „Sett verður á fót rafræn þjónustugátt þar sem landsmenn geta á einum stað nálgast þjónustu hins opinbera og sinnt þeim erindum sem beinast að stjórnvöldum. Þá verður opnuð samráðsgátt þar sem óskað verður eftir afstöðu almennings til lagasetningar og verkefna þegar á undirbúningsstigi og gagnsæi aukið.“

1. Ísland.is - Þjónusta

Ríki og sveitarfélög þrói saman „mínar síður“ á Ísland.is (ein gátt). Í lok árs 2016 geti einstaklingar og fyrirtæki afgreitt erindi sín við stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, hvenær sem er, hvar sem er og án tafar. Einnig geti einstaklingar og fyrirtæki fengið upplýsingar um sín mál og fylgst með stöðu þeirra. Opnaður verði aðgangur að persónubundnum upplýsingum í skrám opinberra aðila á þann hátt að einstaklingar hafi aðgang að sínum upplýsingum.

2. Ísland.is - Skipulag, öryggi og samvirkni

Tryggður verði aðgangur að auðkenningarleiðum sem mæta því öryggisstigi sem þörf er á hverju sinni, þarmeð talið Íslykli og fullgildum rafrænum skilríkjum.

3. Ísland.is - Opin og gegnsæ stjórnsýsla

Almenningur, fyrirtæki og hagsmunaaðilar hafi greiðan aðgang að ópersónubundnum upplýsingum og skrám í vörslu ríkis og sveitarfélaga. Mótuð verði stefna ríkis og sveitarfélaga um opin gögn og sett upp ein gátt fyrir aðgang að slíkum gögnum/ gagnagrunnum á Ísland.is: http://gogn.island.is/

4. Ísland.is - Lýðræði

Ríki, sveitarfélög og stofnanir þeirra tileinki sér gegnsæ, skilvirk og opin samráðsferli svo að almenningur og fyrirtæki geti með auðveldum hætti komið sjónarmiðum sínum að í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku. Komið verði á rafrænni kjörskrá, rafrænum íbúakosningum og undirskriftarsöfnunum í sveitarfélögum sem verði undanfari tilraunar með rafrænar sveitarstjórnarkosningar.