Fara beint í efnið

Vinnuaðstæður starfsfólks í fjarvinnu verða alltaf mismunandi og fara þær eftir aðstæðum og verkefnum hverju sinni, staðsetningu starfstöðvar og þeim búnaði sem þarf til þess að sinna vinnunni. Atvinnurekanda ber að sjá til þess að áhættumat starfa sé gert á fjarvinnustöðinni eftir að ákvörðun hefur verið tekin um fjarvinnu starfsmanns og þann búnað sem þarf til að sinna störfunum.

Áhættumatið þarf að greina og meta helstu áhættuþætti sem geta haft áhrif á öryggi, heilsu og líðan starfsmanns. Meta þarf vinnuaðstöðuna, þann búnað sem nota þarf við vinnuna, líkamsbeitingu við vinnu, umhverfisþætti, þjálfun starfsmanns, samskiptaleiðir, vinnufyrirkomulag og aðra sálfélagslega áhættuþætti við fjarvinnu.

Að áhættumati loknu þarf að gera áætlun um forvarnir þar sem koma fram nauðsynlegar úrbætur á grundvelli áhættumatsins og tryggja þarf að gripið sé til ráðstafana til að fyrirbyggja eða lágmarka hættur í starfi og neikvæð heilsufarsáhrif. Gagnlegt er að nota gátlista fyrir áhættumat í fjarvinnu.

Mikilvægt er að stjórnandi og starfsmaður í fjarvinnu og jafnvel öryggistrúnaðarmaður fari saman yfir gátlistann til dæmis á fjarfundi þar sem aðstaðan er skoðuð í gegnum vefmyndavél eða myndsímtal svo hægt sé að ganga um og sýna aðstöðuna. Skrá þarf niður áhættuþætti og ræða úrbætur. Þegar búið er að sammælast um úrbætur er gott að báðir aðilar skrifi undir áhættumatið. Endurskoða þarf svo áhættumatið ef slys eða óhöpp verða eða umtalsverða breytingar verða á störfum eða aðstöðu.

Sjá nánar um áhættumat.

Stoðkerfi í fjarvinnu

Huga þarf að stoðkerfi starfsfólks í fjarvinnu líkt og gert er á hefðbundinni starfsstöð. Meta þarf hvort hættur séu til staðar í vinnuumhverfinu sem geta valdið einkennum frá stoðkerfi, eins og verkjum eða skertri hreyfigetu. Gott er að hafa gátlista fyrir áhættumat í fjarvinnu til hliðsjónar við matið.

Orsakir stoðkerfisverkja

Orsakir stoðkerfisverkja geta verið margir en góð vinnuaðstaða, fjölbreytt verkefni, hentug líkamsbeiting og regluleg hreyfing eru allt þættir sem geta dregið úr líkum á þeim. Hér má lesa nánar um starfstengda stoðkerfisverki.

Viðmið um vinnustellingar og búnað

Vinnuaðstaða er oft lakari heima en á hefðbundinni starfsstöð og eins getur verið flókið að gera áhættumat heima hjá starfsfólki. Fjölbreytni og hreyfing yfir vinnudaginn eru lykilatriði til að draga úr álagseinkennum frá stoðkerfi. Því þarf að kappkosta að allur búnaður sé stillanlegur til að starfsfólk eigi auðvelt með að breyta um stellingar og aðlaga búnaðinn að sér. Hér má lesa nánar um hentuga líkamsbeitingu við vinnu.

Sálfélagslegt vinnuumhverfi í fjarvinnu

Hlúa þarf vel að sálfélagslega vinnuumhverfinu í fjarvinnu en hún getur reynt á samskipti og starfsanda, haft áhrif á andlega líðan fólks og valdið streitu. Þetta eru þættir sem erfiðara getur verið fyrir stjórnendur að ná utan um í fjarvinnu. Því er mikilvægt að gæta að því að hafa bæði formleg og óformleg samskipti við starfsfólk í fjarvinnu og að það ríki traust á milli starfsfólks og stjórnenda.

Fjarvinna getur haft í för með sér að starfsfólk finni fyrir einangrun, vinni lengri vinnudaga og að mörkin á milli vinnu og einkalífs hliðrist til.

  • Mikilvægt er að starfsfólk upplifi að það hafi stuðning frá stjórnendum og vinnustaðnum þegar það er skilgreint í fjarvinnu. Einnig þarf að huga að mismunandi félagslegum aðstæðum starfsfólks og kanna hvort það þurfi sérstakan stuðning. Þetta getur meðal annars átt við um erlent starfsfólk og starfsfólk með skerta starfsgetu.

  • Gott er að skipuleggja hvernig samskipti eiga að fara fram á vinnutíma. Góð samskipti draga úr streitu, bæta viðhorf starfsfólks til vinnunnar og auka öryggi.

Vinnutengd streita er skilgreind sem líkamleg eða andleg viðbrögð líkamans þegar starfsfólk upplifir misræmi milli eigin hæfni og getu og þeirra krafna sem starfið gerir. Starfsfólk upplifir þá vantrú á eigin getu þannig að tímapressa og aðrar áhyggjur geta valdið því vanlíðan og meiri streitu.

  • Fjarvinna getur haft áhrif á starfsanda og vinnustaðamenningu. Því fylgir áskorun að viðhalda góðum starfsanda og vinnustaðarmenningu og að finna leiðir til að viðhalda tengslamyndun starfsfólks.

  • Fjarvinna getur valdið félagslegri einangrun vegna minni samskipta við samstarfsfólk og viðskiptavini. Þetta getur haft veruleg áhrif á starfsfólk, sérstaklega þá einstaklinga sem fá félagslegum þörfum sínum fullnægt í samskiptum við vinnufélaga. Einangrun af þessu tagi getur leitt til leiða eða annarra andlegra heilsutengdra vandamála.

Umhverfið á fjarvinnustöð

Hinir ýmsu umhverfisþættir skipta ekki síður máli í fjarvinnu en á hefðbundnum starfsstöðvum.

Þeir eru eftirfarandi:

Gátlistar fyrir áhættumat í fjarvinnu

Mælt er með því að nota Acrobat Reader til að opna gátlistann. Einnig er hægt að sækja listann með því að hægri-smella á linkinn, velja “save link as” og opna skjalið þar sem það er vistað.

Þjónustuaðili

Vinnu­eft­ir­litið

Vinnueftirlitið

Hafðu samband

Sími: 550 4600

Netfang: vinnueftirlit@ver.is

Afgreiðslu­tími þjón­ustu­vers

Mánudaga til fimmtudaga: 9 til 15

Föstudaga: 9 til 14

Kennitala

420181-0439